Ökunámið

Ferli ökunámsins

Námsheimild

Í upphafi ökunáms þarf að sækja um námsheimild hjá sýslumanni, en það er gert með því að fylla út umsókn um ökuskírteini og skila því til sýslumanns.

Ásamt umsókn þarf að fylgja ljósmynd og læknisvottorð ef viðkomandi notar gleraugu eða hefur svarað játandi við einhverjum af þeim sjúkdómum sem spurt er um á umsókninnni.

Ökutímar

Þegar búið er að fá námsheimild hjá sýslumanni má viðkomandi fara í fyrsta ökutímann. Ekki má hefja nám fyrr. Tímafjöldi er mismunandi hjá hverjum og einum, en að meðaltali þurfa nemar um 16-25 verklega tíma.

Í fyrsta ökutímanum fær neminn ökunámsbók. Mikilvægt er að halda vel utanum bókina.

Æfingaakstur

Ljúka þarf ökuskóla 1 og að lágmarki 10 ökutímum áður en æfingaakstur með leiðbeinanda getur hafist.

Leiðbeinandi í æfingaakstri þarf að hafa náð 24. ára aldri, haft ökuréttindi fyrir B – flokk í a.m.k. 5 ár og má ekki hafa verið sviptur ökuréttindum sl. 12 mánuði.

Sótt er um æfingaakstur hjá Sýslumanni í Kópavogi. Umsókn um æfingaakstur má finna í ökunámsbók ökunema, þó má ekki sækja um æfingaakstur fyrr en ökukennari hefur staðfest að ökunemi sé tilbúinn.

Ökuskóli 1

Þegar búið er að fara í að minnsta kosti 1 ökutíma er hægt að skrá sig í Ö1. Ö1 eru 12 kennslustundir. Bæði er hægt að taka hann í staðnámi og fjarnámi (á netinu).

Námsefnið sem farið er yfir í Ö1 fjallar um:

  • • Ökuskírteinið og ökuréttindi
  • • Bifreiðin
  • • Umferðarheildin
  • • Umferðarlög
  • • Umferðarmerki
  • • Umferðarhegðun
  • • Almenn viðhorf í umferðinni

Ökuskóli 2

Gott er að taka Ö2 þegar styttast fer í bóklega prófið. Ö2 eru 10 kennslustundir. Bæði er hægt að taka hann í staðnámi og fjarnámi

Námsefni sem farið er yfir í Ö2 fjallar um:

  • • Upprifjun á námsþáttum í Ö1
  • • Umferðarsálfræði
  • • Áættuþættir umferðar
  • • Viðhorf og ábyrgð ökumanns
  • • Opinber viðurlög við brotum
  • • Skyndihjálp
  • • Undirbúningum undir fræðilega prófið

Ökuskóli 3

Þegar búið er að taka a.m.k. 12 ökutíma og klára Ö1 og Ö2 er hægt að skrá sig í Ö3.

Ö3 eru 2 verklegir tímar og 3 bóklegir.

Mikilvægt er að hafa ökunámsbók meðferðist, en án hennar fær viðkomandi ekki að taka þátt.

Hægt er að skrá sig í Ö3 hér:

Bóklegt próf

2 mánuðum fyrir 17 ára afmælisdaginn er hægt að fara í bóklega prófið hjá Frumherja.

Til þess að mega þreyta bóklega prófið þarf að hafa ökunámsbók meðferðis sem staðfestir að viðkomandi hafi lokið Ö1, Ö2, Ö3.

Bóklega prófið eru 30 spurningar sem skipt er niður í tvo hluta, A – 15 og B – 15. Til þess að standast prófið má viðkomandi hafa mest 2 villur í A – hluta og 7 villur í heild.

Nemandi pantar sjálfur tíma í bóklegt próf hjá Frumherja á vefsíðu þeirra. Ef breyta þarf tímanum skal hringja í síma 570 – 9070. Ef viðkomandi þarf lesblindu- eða einstaklingspróf þarf ökukennari að panta prófið.

Verklegt próf

2 vikum fyrir 17 ára afmælisdaginn má taka verklegt próf hjá Frumherja.

Til þess að mega þreyta verklega prófið þarf ökunámsbók meðferðis sem staðfestir að viðkomandi hafi lokið Ö1, Ö2, Ö3 og að minnst 17 verklegum tímum (þar af eru 2 tímar í Ö3). Hafa ber í huga að flestir taka um 19 – 25 verklega ökutíma, en ökukennari metur hvenær hann telur viðkomandi tilbúinn að fara í próf.

Ökukennari pantar tíma í verklegt próf.

Akstursmat

Þegar verklegt próf á bíl er staðist fær viðkomandi bráðabirgðarskírteini, en það gildir aðeins í 3 ár.

Til að hægt sé að fá fullnaðarskírteini má viðkomandi ekki hafa fengið refsipunkta í 1 ár og fara svo í akstursmat.

Akstursmat fer fram hjá ökukennara og má taka annaðhvort á bíl ökukennara eða á eigin bíl, en bíllinn þarf að vera í lagi og með skoðun.